Í vefsjánni eru sýndir vegir sem teknir hafa verið inn í tillögu sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um vegi í náttúru Íslands.
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar er skylt, skv. 32. gr. laga um náttúruvernd nr. 90/2013, að samþykkja skrá yfir vegi í náttúru Íslands samhliða afgreiðslu aðalskipulags og kynna tillögu þar um fyrir hagsmunaaðilum sem tilgreindir eru í lagagreininni. Undirbúningur og setning þessarar vegaskrár teljast ekki til stjórnvaldsákvarðana sem eru kæranlegar til æðra stjórnvalds. Um er að ræða málsmeðferð við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og þá gilda hvorki kæruheimildir stjórnsýslulaga né náttúruverndarlaga. Einnig er ljóst að ákvörðun um það hvort vegur er á vegaskránni eða ekki telst ekki vera skipulagsákvörðun, enda er vegaskráin ekki hluti af aðalskipulagi.
Sveitarstjórn telur að sér sé ókleift að setja fram marktæka tillögu um vegi í náttúru Íslands innan Þingeyjarsveitar af eftirtöldum ástæðum:
Nær allt land innan sveitarfélagsmarka er ýmist í einkaeign, á þjóðlendu eða innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
Fram hefur komið hjá Landsneti að það telji sig ekki geta stuðst nægilega við almenna undanþágu til aksturs utan vega vegna starfa sinna skv. 31. gr. laga um náttúruvernd. Fyrirtækið hefur því komið á framfæri við sveitarstjórn vegum sem það telur að þurfi að vera á vegaskrá. Sveitarstjórn telur sig ekki geta tekið fram fyrir hendur á Landsneti og færir því vegi sem fyrirtækið tilgreinir inn í vegaskrána án athugasemda og telur sig þar með heldur ekki geta orðið við athugasemdum annarra um þessa vegi, sem fram kunna að koma. Sveitarstjórn telur sig heldur ekki hafa leiðbeiningaskyldu gagnvart Landsneti um nákvæmni eða annan frágang gagna um vegi sem fyrirtækið leggur fram.
Sveitarstjórn setur aðeins á vegaskrá þá vegi og hluta af vegum sem eru innan staðarmarka sveitarfélagsins. Þegar vegir liggja að hluta innan Þingeyjarsveitar og að hluta innan marka annarra sveitarfélaga getur sveitarstjórn ekkert sagt til um hvaða afstöðu nágrannasveitarfélög munu taka til þeirra veghluta sem liggja utan marka Þingeyjarsveitar.
Sveitarstjórn getur ekki ábyrgst að veglína sé alls staðar hnituð með innan við +/- 5 metra nákvæmni enda getur veglína færst til af náttúrulegum ástæðum langt út fyrir þau mörk, t.d. vegna rofs í landi eða vegna náttúruverndaraðgerða.
Sveitarstjórn telur að málsmeðferð breytinga á vegaskrá sé illframkvæmanleg. Breytingar gætu verið nauðsynlegar vegna breyttrar veglínu eða breyttra takmarkana á umferð og þær kann að þurfa að gera hratt. Fyrirskrifuð málsmeðferð felur það í sér að breytingar á vegaskrá gerist samhliða breytingum á aðalskipulagi sem geta verið mjög stopular og taka oftast marga mánuði. Vegaskrá er ótengd aðalskipulagi að öðru leyti og mjög óheppilegt að spyrða þetta tvennt saman.
Af ofangreindum ástæðum er tillaga um vegaskrá í samræmi við 32. gr. laga um náttúruvernd lögð fram til málamynda. Sveitarstjórn lýsir því yfir að hún sé ábyrgðarlaus af réttaráhrifum vegaskrárinnar.
Hér fyrir neðan eru töflur fyrir skipulagsákvæði reita í aðalskipulaginu. Með því að smella á auðkennið lengst til vinstri flyst vefsjáin á þann reit og hann er þá á miðju kortinu.
Enginn hektarafjöldi er sýndur fyrir reiti með punktafmörkun.
Smelltu á heiti flokks til að sjá reiti í þeim flokki.
Smelltu á heiti flokks til að sjá reiti í þeim flokki.