Eftirfarandi skrá er fjórða tilraun höfundar til að setja saman yfirlit um helstu náttúruverðmæti á Fljótsdalshéraði. Sú fyrsta nefndist "Drög að náttúruminjaskrá Héraðs 1992", upp úr henni var samin "Náttúruminjaskrá Héraðs 1994" (um 100 bls.). Einstakir hlutar þeirrar skrár voru endurskoðaðir, mismikið, á ýmsum tímum og öll skráin yfirfarin og endurskoðuð 1998 og bætt við kafla um hálendið. Að lokum var öll skráin endurskoðuð veturinn 2007-08 með tilliti til nýrrar vitneskju og breytinga á umhverfi og mannlífi síðustu tíu árin.
Sá kostur var valinn að skrásetja sem flesta athyglisverða staði og svæði, sem hér kallast náttúrmæri (*), og undirritaður hefur skoðað eða haft spurnir af. Jafnframt er reynt að lýsa landslagi þeirra í stuttu máli og geta um helstu örnefni. Oft er líka minnst á gróður og getið um fágætar tegundir plantna, og stundum fugla og fiska. Skráin er því orðin eins konar náttúrulýsing og ætti að gefa nothæft yfirlit um náttúrufar Héraðs, sérstaklega láglendis og heiða. Reynt hefur verið tengja nálæga staði saman í stærri svæði sem hér kallast griðlönd og má líta á sem æskileg verndarsvæði. Við afmörkun griðlanda er oftast miðað við að innan þeirra sé samstæð og eitthvað aðskilin landslagsheild eða ákveðin sérkenni sem reynt er að draga fram í stuttri lýsingu á þeim. Griðlöndin jaðra oft saman og tengjast í stærri heildir, eins og fram kemur á meðf. korti.
Fyrsta skrá um helstu náttúrumæri á Austurlandi var unnin af Hjörleifi Guttormssyni á vegum Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) 1973. þar eru skráðir 12 staðir og svæði í byggðum og 6 á hálendinu upp af þeim. Þorvarður Árnason kannaði náttúruminjar á vesturhluta Héraðs á vegum NAUST sumarið 1983 og samdi drög að skýrslu um Hlíðarhrepp. Á hinni opinberu náttúruminjaskrá, sem Náttúruverndarráð stóð fyrir en nú er á vegum Umhverfisstofnunar, eru skráðir 23 staðir og svæði í síðustu útgáfu 1996. Um aldamót 2000 hafði ekkert svæði á Héraði verið friðlýst, nema Kringilsárrani, þar sem stofnað var hreindýrafriðland 1975, og hefur nýlega verið skert. í Náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar 2003-08 er lagt til að friðlýsa 7 svæði, þ.e. "Úthérað" (friðland), "Egilsstaðaskóg" (fólkvang), Eyjólfsstaðaskóg (búsvæði), Þingmúla (náttúruvætti), Hallormsstaða- og Ranaskóga (fólkvang), Eyjabakka og Vesturöræfi (friðland) og Kverkfjöll-Krepputungu (þjóðgarð). Það síðastnefnda hefur verið innlimað í Vatnajökulsþjóðgarð sem verið er að koma á fót, en friðlýsingu hinna hefur lítið eða ekkert miðað.
Á Fljótsdalshéraði er ótrúlega margbreytilegt landslag og veðurfar, sem gefur tilefni til samsvarandi fjölbreytileika flóru og gróðurs og væntanlega einnig dýralífs. Skráning náttúrumæra á þessu svæði er því ekkert áhlaupaverk. Þarf vart að taka fram að skráin er engan veginn endanleg, og verður í rauninni aldrei, því að aukin þekking og ný viðhorf mun valda því að hún tekur stöðugum breytingum. Samt vonast ég til að skráin stuðli að því að vekja athygli Héraðsbúa og annara á hinu fjölbreytta náttúrufari svæðisins og þeim miklu verðmætum sem þar eru í húfi þegar um framkvæmdir er að ræða sem leitt geta til varanlegra landbreytinga.
Þegar ég flutti austur árið 1987 byrjaði ég að ferðast um Héraðið, í því skyni að kanna þar náttúru- og söguminjar, skrásetja þær og lýsa þeim. Síðan hefur eitthvað verið unnið við þessa könnun á hverju ári. Ljósmyndir hafa verið teknar í öllum ferðum og ferðalýsingar ritaðar eftir að heim var komið. þar er oftast um miklu nákvæmari lýsingar að ræða en í skránni. Afrit þeirra er geymt í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum.
Áætlun um skógræktarbúskap á Héraði undir nafni Héraðsskóga hljóp af stokkum 1990, og var mér þá falið að kanna náttúrufar fyrirhugaðra skógræktarsvæða og gera tillögur um verndun þeirra, einkum með tilliti til skógræktar. Um aldamótin höfðu um 60 svæði á nálægt 110 jörðum verið könnuð og kortlögð í því skyni. Fyrir hvert slíkt svæði voru teiknuð grunnkort eftir flugmyndum, oftast í mælikvarða 1:5.000, með helstu dráttum landslag og örnefnum og landið flokkað í fimm verndarflokka sem merktir voru á þennan grunn, auk mannvirkja og sögulegra minja. Kortin ná yfir mikinn hluta láglendis á Mið- og Upphéraði. Þessi könnun hefur að sjálfsögðu aukið mjög þekkingu á viðkomandi svæðum og þar er skráningin nákvæmust. þá hef ég lagt áherslu á að skoða fyrirhuguð virkjunarsvæði á Héraðsöræfum og rita um þau.
Víða hef ég orðið að styðjast við heimildir sem eru af skornum skammti, því ennþá hefur ekkert heilaryfirlit komið út um landfræði Héraðs, ef undan er skilin bók Gunnars Gunnarssonar skálds Fljótsdalshérað (árb. F. í. 1944), sem er varla annað en ágrip. Sveitir og jarðir í Múlaþingi öðru nafni "Búkolla" I.-IV. bindi (1974-1978) og aukabindi 1995, undir ritstjórn Ármanns Halldórssonar hefur oftar en ekki reynst gagnlegt uppsláttarrit enda leynast þar mörg gullkornin. Varðandi fjöll og hálendi hafa árbækur Ferðafélags íslands eftir Hjörleif Guttormsson, Austfjarðafjöll (1974) og Norðausturland - Hálendi og eyðibyggðir (1987) reynst mikilvægur upplýsingasjóður. Þá hefur Hjörleifur nýlega lokið við Ferðafélagsbók um Úthérað, sem hann hefur leyft mér að nota í handriti. Fljótsdals- og Jökuldalsafréttir hafa talsvert verið kannaðar vegna fyrirhugaðra virkjana, og liggja þar fyrir ýmsar skýrslur um jarðfræði og líffræði, sömuleiðis um Lagarfljót og lægstu svæðin (nesin) meðfram því. Á árunum 2001-2004 skoðaði ég umhverfi Lagarfljóts sérstaklega vegna bókar sem þá var í smíðum Lagarfljót - mesta vatnsfall íslands, er út kom haustið 2005. Loks er að nefna greinar í blöðum og tímaritum. Heimilda er oftast getið við griðlönd eða mæri.
Öll tiltæk kort hafa verið nýtt til þessa verkefnis og loftmyndir Landmælinga Íslands á sumum svæðum, einkum á skógræktarjörðum. Örnefnaskrár hafa notast til að finna nöfn á stöðum og svæðum. Skarphéðinn G. þórisson hefur tekið mikið af ljósmyndum úr lofti um allt Hérað, sérstaklega á öræfunum. Við næstsíðustu endurskoðun skrárinnar léði hann mér þetta myndasafn sem reyndist mikilvæg heimild.
Sögustaðir, mannvistarminjar og þjóðtrúarstaðir hafa fengið mjög takmarkað rými í þessari umfjöllun, en þeirra er víða getið í smáletursklausum. Fornleifaskráning fór fram í Egilsstaða-, Hjaltastaða- og Fellahreppum 1996-1998 og "svæðisskráning menningarminja" í Fljótsdals-, Jökuldals- og Hlíðarhreppum, þ.e. eftir heimildum. Fornleifastofnun íslands annaðist þessa skráningu, sem er að ýmsu leyti ábótavant. Skrá um "vættastöðvar" á Héraði er til í handriti höfundar. Æskilegt væri að flétta allar þessar skrár saman, því að sögu- og þjóðtrúarminjar gefa landinu aukið verndargildi og gagnkvæmt.
Griðlöndum og mærum er raðað eftir sveitum sólarsinnis á Héraði, en öræfin eru í sérstökum kafla. Reynt var að flokka mærin eftir áætluðu verndargildi í þrjá flokka sem merktir eru með einni til þremur stjörnum (*). Þessi stjörnugjöf er að sjálfsögðu oft mikið álitamál og ber að skoða sem uppástungur. Auk þess eru allmörg mæri ekki stjörnumerkt og lýsingar þeirra með smáu letri. Þau mynda í raun fjórða flokkinn. Þegar lítið er vitað um viðkomandi mæri er það gefið til kynna með merkinu (#). Mæri sem einkum eru skráð vegna lífríkis eru einkennd með () og jarðfræðiminjar með (). Mannvistarminjar eru merktar með () og þjóðtrúarminjar með ()
Höfundi er ljóst að skráin er næsta ófullkomin og ekki er fyrir að synja að ýmis náttúrudjásn hafi orðið útundan. Ég taldi samt rétt að koma því á framfæri sem þegar er vitað, enda er auðvelt að leiðrétta það og bæta á tímum tölvutækni þegar vitneskja eykst. Vinna við svæðisskipulag Héraðssvæðis varð hvati að endurskoðun verksins 1998, þegar samvinnunefnd um það verkefni ákvað að kaupa afnotarétt af skránni, og síðasta endurskoðun var gerð að tilhlutan fyrirtæksins Alta ehf í Reykjavík sem tók að sér aðalskipulag Fljótsdalshéraðs 2007. Á vegum þess voru náttúrumæri í 1.-2. flokki, ásamt útlínum griðlanda, færð inn á meðfylgjandi kort, sem Sigurður Metúsalemsson landfræðingur vann, eftir uppkasti mínu.
Þess skal getið að NAUST útvegaði mér nokkra styrki til þessa verkefnis á síðasta áratug, sem sótt var um til þjóðhátíðarsjóðs, og sveitarfélög á Héraði styrktu endurskoðun þess 1998, en mest hefur þetta verið unnið án væntingar um endurgjald annað en gleðina yfir því að skoða handarverk skaparans og leggja fram svolítinn skerf til verndunar þeirra.
Að lokum skal sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði þakkað fyrir að kosta útgáfu skrárinnar.
Egilsstöðum á hundadögum 2008. H. Hall.
(*) Orðið náttúruminjar hefur fram til þessa oftast verið notað um staði með sérstaklega athyglisverðu náttúrufari. það er að ýmsu leyti óheppilegt og því var hér tekið upp orðið "náttúrumæri", sem stytta má í "mæri" (hk. et.). Orðið er gamalt og merkir land eða landssvæði, fyrir löngu fallið úr almennri notkun.