"Sérkortasafnið" er tilraunaverkefni um kortasjá (2024), sem gefur möguleika á að skrá og birta á einum stað þau kort af Íslandi sem eru hvorki heildarkort af landinu öllu né hluti af stóru heildarblaðskiptingum kortaflokkanna sem til eru af Íslandi. Framsetningin í Sérkortasafninu byggir í grunninn á sömu hugmynd og veflausn kortasjár sem gerð var hjá Alta fyrir kortasafn Orkustofnunar.
Til þess að geta sett fram reiti í kortasjá fyrir kort utan heildarblaðskiptingakerfa eins og gert er í Vefkortasafninu, þarf að skrá hornhnit fyrir fjögur horn hvers korts, alls átta tölur umreiknaðar í viðmiðun ISN. Orkustofnun veitti leyfi fyrir því að tekið væri afrit af þeim gögnum sem þurfti til að geta birt sérkort (kort utan heildarkortaflokka) stofnunarinnar í endurgerðri veflausn, sem gæti síðan hentað sameiginlega fyrir kort margra annarra íslenskra stofnana og safna. Önnur kort á ábyrgð Orkustofnunar hafa jafnframt verið birt með leyfi í gegnum blaðskiptingar í Vefkortasafninu.
Framhald verkefnis um Sérkortasafnið byggir eins og áframhald Vefkortasafnsins á velvilja, vinnuframlagi, greiðsluþátttöku og áhuga þeirra sem stjórna opinberum stofnunum og söfnum sem varðveita eða báru ábyrgð á gerð korta á fyrri tíð. Þannig getur nú orðið framkvæmanlegt að koma upplýsingum um öll opinber íslensk kort í opið aðgengi gegnum þessi tvö samræmdu kortasjárverkefni á netinu, þ.e. ef viðkomandi stofnun, safn og/eða ráðuneyti þeirra hefði áhuga á því, en slíkur áhugi hefur hingað til ekki verið mjög sýnilegur.
Þorvaldur Bragason