Þetta gæti verið kortasjá sem veitti þér aðgang að ótrúlega áhugaverðum sögulegum myndum teknum úr lofti af Íslandi! Svo er hins vegar ekki vegna þess að myndirnar, sem eru varðveittar í opinberum söfnum, hafa ekki verið skannaðar eða skráðar með samræmdum hætti, en það er forsenda þess að hægt sé að birta þær í verkefni eins og þessu. “Loftmyndasafnið” er því hugmynd að nýju verkefni (2021) sett fram af einkaaðila sem hefur ekki aðgang að ákvarðanatöku um verkefni safnanna en hefur áhuga á að verkefnið verði unnið.
“Loftmyndasafnið” gæti í fyllingu tímans veitt samræmdan aðgang í kortasjá að upplýsingum um gamla flokka loftmynda af Íslandi og elstu gervitunglamyndir sem til eru hérlendis. Auk þess mætti taka með gamlar ljósmyndir sem teknar voru fyrr á tíð úr flugförum yfir landinu og gamlar þrívíddarmyndir teknar ofan af fjallstindum vegna kortagerðar. Um er að ræða mikinn fjársjóð myndefnis sem er fjölbreyttur, en um leið mjög ósamstæður. Efniviðurinn er óskannaður en að hluta til skráður með ólíkum aðferðum. Mest af þessu myndefni er geymt hjá Landmælingum Íslands, en einnig hjá öðrum stofnunum og söfnum hér á landi og erlendis. Þá er jafnframt þekkt úr bandarískum skrám um myndasöfn að til eru gamlir myndaflokkar af Íslandi sem ekki hafa verið fengnir til landsins.
Hér eru settar fram hugmyndir um að birta með samræmdum hætti upplýsingar um afmarkaða og innbyrðis ólíka erlenda flokka gamalla loftmynda, gervitunglamynda og ljósmynda úr flugi. Þeir stærstu telja e.t.v. um 2000 myndir, en flestir eru þó mun minni. Stóru loftmyndasöfnin þrjú hér á landi, hjá Landmælingum Íslands, Loftmyndum og Samsýn, hafa verið byggð upp hvert með sínum hætti og eru algerlega sjálfstæð myndasöfn sem geyma ólíkan safnkost og hafa mismunandi vefframsetningu. Gömlu loftmyndaflokkarnir eru ólíkir flokkum mynda úr kerfisbundnu loftmyndaflugi af stórum landshlutum eða landinu öllu eins og stóru söfnin geyma. Þetta gamla efni þarf því allt aðra meðhöndlun, sem hægt væri að koma til móts við í „loftmyndasafninu“ ef vilji væri til þess að koma verkefninu í framkvæmd.
Verkefni sem þetta getur ekki orðið að veruleika nema með samvinnu margra. Vinna við hvern einstakan myndaflokk krefst sérstakrar skipulagningar og rannsóknarvinnu. Samræmd skráningarlausn fyrir ólíkar myndgerðir þarf að verða til í upphafi verkefnisins. Skráningarvinna, hnitsetning myndarmiðju allra mynda og skönnun eru grunnþættir innan verkefnisins. Heildarskipulag, afmörkun verkþátta, aðgengi að vefþjónustum með skönnuðu myndefni, samhæfing og fjármögnun eru svo lykilþættir í að allt geti gengið upp. Þessi hugmynd er hér sett fram til kynningar og umræðu.
Þorvaldur Bragason