Kortasafn Orkustofnunar samanstendur annars vegar af kortum sem orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar og hjá forvera
hennar Raforkumálaskrifstofunni sem og af kortum (orkugrunnkortum) frá Landsvirkjun og RARIK af virkjanasvæðum landsins.
Hins vegar eru í safninu kort sem aflað hefur verið frá ýmsum aðilum hér á landi og erlendis.
Þessi kortasjá veitir upplýsingar um þau kort sem eru talin hafa verið á ábyrgð Orkustofnunar. Um er að ræða kort þar sem
stofnunin hefur annað hvort unnið að kortagerðinni sjálfri eða fjármagnað og/eða stýrt viðkomandi kortagerð. Kortin hafa
hingað til verið skráð í tvo meginflokka: orkugrunnkort og jarðkönnunarkort, en þar er einkum um að ræða fjóra efnisflokka
korta: grunnkort, jarðfræðikort, vatnafarskort og fáein gróðurkort. Kortin hafa verið vandlega skráð i gagnagrunn, skönnuð í
hárri upplausn og kortin (filmur og pappír) ásamt afriti af efni gagnagrunnsins og skönnuðum kortum verið skilað til varðveislu
á Þjóðskjalasafni Íslands. Eintök af öllum kortunum eru síðan í kortasafni Orkustofnunar og aðgengi að efni safnsins hefur bæði
verið opið gegnum leitarvalmynd fyrir kortasafn á vef OS og í kortasjá OS (áður í Orkuvefsjá OS). Heildarfjöldi titla er nálægt einu þúsundi.
Þremur eldri kortasjám Orkustofnunar; Landgrunnsvefsjá, Orkuvefsjá og tilraunavefsjá fyrir kort í mælikvarða 1:25 000, sem byggðu á eldri hugbúnaði (Flashmap) var lokað í nóvember 2019. Ástæðurnar voru þær að hugbúnaðinum hefur ekki verið haldið við í áraraðir af upphaflegum framleiðanda og hefur búnaðurinn því úrelst.
Orkustofnun er í samstarfi við Loftmyndir ehf um nýja „Kortasjá OS“ fyrir gögn af Íslandi, sem hefur komið í stað Orkuvefsjár. Þar
eru nú m.a. birtar upplýsingar um kort OS. Í stað eldri Landgrunnsvefsjár er komin ný „Landgrunnssjá“ sem þróaðist í samstarfi við
Alta ehf. við afritun eldri gagna af Drekasvæðinu.
Til að geta lokað kortavefsjá 1:25 000 var ákveðið að útbúa sambærilega framsetningu og til var orðin fyrir nýja Landgrunnssjá
og birta þar bæði gögn úr gagnasettinu um kortasafn OS sem er þegar birt í „Kortasjá OS“ og bæta einnig við gagnasetti um kort annarra
stofnana úr tilraunaverkefninu um Kortasjá 1:25 000. Úr varð þessi nýja kortasjá „Orkustofnun – Kortasafn“. Í sjánni eru því bæði
upplýsingar um kortasafn Orkustofnunar (sjá einnig orkugrunnkort Raforkumálastjóra, Landsvirkjunar og RARIK) og til viðbótar kort annarra
stofnana sem gerð voru í tengslum við kortagerðarverkefni í mælikvarða 1:25 000 á árabilinu 1984-2000.