Endurskoðun aðalskipulags

Nú stendur yfir endurskoðun aðalskipulags Eyja- og Miklholtshrepps, sjá verkefnislýsingu hér.

Meðal þess sem aðalskipulagið kveður á um er hvernig land er notað á hverjum stað og eru slík ákvæði bindandi. Ekki er hægt að gefa út bygginga- og framkvæmdaleyfi nema þau séu í samræmi við stefnu um landnotkun í aðalskipulaginu. Það er því mjög mikilvægt að landeigendur skoði vel þessi ákvæði og tryggi að þau endurspegli áform um þróun búsetu, búskapar og annarrar atvinnustarfsemi.

Á þessum vef gefst tækifæri til að rýna þær upplýsingar sem fyrir liggja í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi eins og hún er hverju sinni. Mikilvægt er að athuga eftirfarandi:

  • Á þessum vef er aðeins sýndur landnotkunarhluti skipulagsins. Greinargerð með almennri stefnumörkun er í mótun en ekki sýnd hér.
  • Til einföldunar og aðgreiningar eru landbúnaðarsvæði ekki sýnd á kortasjánni. Almennt er allt land annað en reitirnir sem sýndir eru flokkað sem landbúnaðarland eða óbyggð svæði.
  • Um hvern reit gilda tvenns konar skilmálar: Annars vegar almennir skilmálar sem eiga við um alla reiti í viðkomandi flokki (t.d. um öll athafnasvæði) og hins vegar sértækir skilmálar fyrir hvern reit fyrir sig. Þegar smellt er á reit á kortasjánni koma sértækir skilmálar fram í dálkinum hægra megin en almennir skilmálar eru ekki sýndir. Á síðunni sem merkt er "landnotkunartöflur" koma fram bæði almennir og sértækir skilmálar allra reita.
  • Allir reitir hafa einkvæmt auðkenni, t.d. AT-13, þar sem bókstafirnir sýna landnotkunarflokkinn en tölustafirnir eru hlaupandi númer innan hvers flokks sem hafa enga sérstaka merkingu.

Hægt er að skrá ábendingar um það sem betur má fara, bæði með því að smella á "ábendingar" hér fyrir ofan eða inni á kortasjánni. Einnig má hafa samband við skipulagsráðgjafann, Árna Geirsson hjá Alta, sími 582 5000 eða senda honum tölvupóst (arni@alta.is).